Monday, May 09, 2005

Earsoft_Earplugs

Ég er að vinna við Austurvöll.

Að vinna hérna hefur sína kosti og galla. Það er stutt í fullt af kaffihúsum, ef maður vill taka sér breik frá vinnunni. Bankinn minn er hinum megin við götuna. Þetta er skemmtilegt hverfi til að fá sér göngutúr í þegar maður þarf að hreinsa hugann og fá góða hugmynd. Stutt í Dairy Queen þegar manni langar í ís í góða veðrinu.

Stundum er rosalega fínt að vinna hérna.

Núna er verið að mótmæla einhverjum andskotanum fyrir utan gluggann minn. Ég veit ekki hvað. Mér er eiginlega alveg sama. Mótmælin virka þannig, að það er endalaus straumur af leigubílum og vörubílum sem rúnta fram hjá alþingishúsinu með flauturnar á blasti.

Það er örugglega verið að funda um eitthvað sem tengist þeirra atvinnu eða högum inni í Alþingi. Þeir eru eflaust voðalega svekktir. Gott og vel. Ég tek oft leigubíl, og þarf einstaka sinnum að flytja, þannig að ég hitti oft fólk í þessum starfsstéttum. Ágætis fólk allt, kannski ekki mikið af gáfnaljósum í þessum stéttum samt.

Það sem þessir snillingar eru ekki að registera, er að Alþingi er hús hlaðið úr steinum. Þingsalir eru svo fyrir aftan annan hlaðinn vegg, að ég held. Þessi skarkali sem þeir eru að búa til heyrist eflaust vart þangað inn. Kannski örlítill ómur, varla meir. Öll hin húsin við austurvöll eru samt úr venjulegri steypu eða timbri, flestöll með stóra glugga, og fólk sem vinnur, eða gistir, hinum megin við þessa glugga. Kaffihús sem rukka fullt af pening til að fólk geti sest niður í ró og næði. Auglýsingastofur þar sem að stressað fólk eins og ég eru að berjast við að koma verkum út úr húsi þannig að það komist heim í tæka tíð til að borða kvöldmat með fjölskyldum sínum.

Undanfarinn klukkutíma hefur öll vinna legið niðri í öllum húsunum með glugga sem snúa að Alþingi. Ég efast um að það sitji margir inná Thorvaldsen í stóru sölunum þeirra við Austurvöll. Og þessi mótmæli hafa pottþétt engin áhrif haft á framgöngu mála inná þingi.

Ég ætla líka að mótmæla.

Næsta laugardagskvöld ætla ég að mótmæla því að Alþingi hefur ekki ennþá leyft sölu bjórs í 10-11. Eða kannski Kárahnjúkavirkjun. Jafnvel hækkun skólagjalda í LHÍ.

Stjórnarráð Íslands er við Lækjargötu. Það er ekki mikil traffík inn og út úr stjórnarráðinu klukkan þrjú á aðfaranótt sunnudags, en það gæti nú samt verið miðnæturfundur í gangi. Ég ætla að koma fyrir bretti með fullt af nöglum á í Lækjargötu, við ljósin við Hverfisgötu. Það eru hverfandi líkur á að þetta skaði bíla ráðherrana, en það gæti samt gerst. Reyndar kemur þetta sennilegast til með að valda talsverðum skaða á leigubílaflota Íslands, en hey, þeir skilja svona. Þeir vita sem er að það skiptir ekki máli hvort að mótmæli virka á þann sem þú ert að mótmæla, svo lengi sem að þú nærð að pirra einhvern, einhversstaðar.